Mauraþúfan
Undirbúningshópur Þjóðfundar er samsettur af einstaklingum sem hafa ólíkan bakgrunn en eiga það allir sameiginlegt að hafa með einum eða öðrum hætti framkvæmt og talað fyrir skipulagðri sameiginlegri umræðu og hugmyndavinnu meðal þjóðarinnar til þess að finna bestu leiðina til framfara við nýjar aðstæður. Hópurinn hefur kallað sig Mauraþúfuna með vísan til þess sem á ensku hefur verið kallað „Collective Intelligence“.
Nánar um nafnið Mauraþúfan
Á síðari árum hefur orðið æ ljósara að stórir hópar búa yfir innsæi og viti sem einstaklingarnir innan hópanna eru sér ekki meðvitaðir um. Þekkt dæmi af þessu fyrirbrigði í náttúrunni er mauraþúfa. Mauraþúfa er samyrkjubú margra miljóna maura sem hver og einn hefur ákaflega takmarkað vit og stjórnast eingöngu af eðlishvötum. Ef ytri ógn stafar að mauraþúfunni, ef til að mynda nálæg á er í vexti og grefur úr árbakkanum og nálgast mauraþúfuna bregst mauraþúfan við og færir sig lengra frá ánni. Enginn maur tekur þessa ákvörðun – mauraþúfa sem heild hefur vit sem engum mauranna er gefið og enginn mauranna veit af. Staðfestingar hafa fengist fyrir því að þannig sé þetta líka í mannheimum.
Hópurinn hefur starfað í sumar og hist reglulega til þess að stilla saman hugmyndir og móta aðdraganda, skipulag og eftirfylgni Þjóðfundar. Hópurinn hefur lagt fram þessa vinnu endurgjaldslaust og mun gera það áfram. Einstaklingar innan hópsins hafa víðtæk alþjóðleg tengsl við sérfræðinga með reynslu á þessu sviði sem hafa boðið fram aðstoð sína við undirbúning fundarins fram að þessu endurgjaldslaust. Allir þeir sem komið hafa að málinu eiga það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga og trú á verkefninu og þeim áhrifum sem það getur haft þjóðinni til heilla.
Hægt er að hafa samband við Mauraþúfuna í síma 773.7399 eða á maurathufan@gmail.com. Grandagarði 2, 101 Reykjavík.
Eftirfarandi hafa verið þátttakendur í Mauraþúfunni:
- Bjarni Snæbjörn Jónsson
- Björk Guðmundsdóttir
- Guðjón Már Guðjónsson
- Gunnar Jónatansson
- Halla Tómasdóttir
- Haukur Ingi Jónasson
- Lárus Ýmir Óskarsson
- María Ellingsen
- Svandís Svavarsdóttir
- Þorgils Völundarson
Síðustu misserin hafa ótal margir bæst við skipulagshópinn til þess að hjálpa með ólík viðfangsefni.