Þjóðfundur um nýjan sáttmála
Íslenskt þjóðfélag stendur á tímamótum. Nýjar aðstæður kalla á endurmat þeirra grundvallargilda sem samfélagið er reist á og skýrari framtíðarsýn
.Laugardaginn 14. nóvember verður efnt til þjóðfundar í Laugardalshöllinni þar sem glímt verður við þessi brýnu verkefni. Til fundarins er stefnt marktæku úrtaki íslensku þjóðarinnar, allt að 1500 manns. Þjóðfundur virkjar sameiginlegt innsæi og vitund almennning sem er hulin hverjum einstaklingi í einrúmi. Þjóðfundurinn er framtak þjóðarinnar sjálfrar og sameign hennar. Gengið er út frá því að þeir sem hafa valist til ábyrgðar fyrir hönd þjóðarinnar verði einnig þátttakendur í umræðunni og skuldbindi sig til þess að taka mark á niðurstöðum hennar og fylgja þeim eftir.
Fundurinn er ekki hefðbundinn framsögu eða umræðufundur í ætt við pólitíska fundi eða þá borgarafundi sem haldnir hafa verið á undanförnum mánuðum. Þess í stað verður þátttakendum skipt niður í hópa sem starfa saman allan fundartímann. Umræðustjórar tryggja samræmi í aðferðafræði og árangursríkar umræður.
Dagskrá fundarins verður í meginatriðum þessi: Þátttakendur boðnir velkomnir og kynnt efni fundarins, fyrirkomulag og markmið. Fyrri hluti fundarins er helgaður spurningunni: ”Hvaða lífsgildi eiga að vera okkur leiðarljós í þróun samfélagsins?”. Síðari hluti fundarins er helgaður umræðu um meginstoðir samfélagsins, eins og velferðar- og menntakerfi, atvinnuskapandi umhverfi, regluverk o.fl. og með hvaða hætti hægt er að endurmóta þær í samræmi við þau lífsgildi lögð hafa verið til grundvallar.
Afurð fundarins verður framtíðarsýn byggð á skýrum sameiginlegum grunngildum. Að auki eru skilgreindar áherslur, markmið og verkefni sem nauðsynleg eru til þess að tryggja skilvirkan farveg fyrir þær breytingar og aðgerðir sem ráðast þarf í. Fundurinn markar upphaf þess að móta nýtt líkan sem bregst við áðurnefndum kaflaskilum í þróun samfélagsins. Í kjölfar hans verður ráðist í markvissar aðgerðir sem byggjast á niðurstöðum hans. Fundurinn mun einnig kalla fram áframhaldandi umræðu sem miðar að því að þróa niðurstöðurnar áfram til heilla fyrir land og þjóð.
Árangur af þjóðfundi og því endurreisnarstarfi sem á eftir fylgir hvílir á tilteknum meginþáttum sem mikilvægt er að halda til haga: Að virkja gerjunina og kraftinn sem er að finna um allt samfélagið nú þegar. Að tryggja flæði milli fortíðar, nútíðar og framtíðar þannig að eðlilegt tenging sé milli þess sem var með uppgjöri við fortíðina og þess sem verður út frá nýju upphafi. Horft verði til lengri tíma án þess að gleyma því að skammtímasjónarmið eru mikilvæg til þess að fást við yfirstandandi erfiðleika. Að skapa öflugar tengingar milli meginstoða samfélagsins svo sem stofnana, fyrirtækja, hagsmunahópa, stjórnmálaafla og fagaðila, og sameina þannig krafta ólíkra aðila. Síðast en ekki síst er mikilvægt að tryggja eftirfylgni og framkvæmd ákvarðana, en þetta næst fram með því að þeir sem bera formlega ábyrgð á einstökum sviðum samfélagsins sameinist um að styðja verkefnið og tryggja nauðsynlegum aðgerðum brautargengi. Þarna er átt við aðila einsog alþingi, ríkisstjórn, hagsmunasamtök og fleiri.
Órjúfanlegur hluti þjóðfundarverkefnisins er að skipuleggja markvisst 52 vikna ferli þar sem í hverri viku verður lagður steinn í hleðsluna. Um leið verður unnið ötullega að samstillingu allra þeirra afla sem geta breitt út umræðuna og staðið fyrir eða stutt aðgerðir til jákvæðrar þróunar. Meginatriðið verður samt ævinlega að sjálf framkvæmd breytinganna verði á ábyrgð þjóðarinnar.
Í undirbúningshópi Þjóðfundar er fólk sem er tengt víðtæku neti grasrótarsamtaka, stjórnmála og atvinnulífs en hefur einnig þekkingu og reynslu af framkvæmd viðburðar af því tagi sem um ræðir.