Spurningar og svör

1. Af hverju þarf að halda Þjóðfund?

Í endurreisnarstarfinu er (e.t.v. óhjákvæmilega) horft þröngt á aðkallandi verkefni og unnið innan þröngs tímaramma. Sú umræða heldur áfram í þeim farvegi sem hún er. Þjóðfundurinn gefur hins vegar færi á að lyfta umræðunni upp úr einstökum viðfangsefnum, horfa lengra fram og hlusta á visku þjóðarinnar án þess að hún komi í gegnum síu stjórnmálaflokka eða hagsmunasamtaka.

Sú aðferð að leiða saman stóran hóp til stefnumörkunar er vel þekkt, en aldrei áður hefur verið prófað að kalla saman tölfræðilega marktækt úrtak heillar þjóðar í því skyni að efna til samtals í heilan dag. Gildi fundarins felst í því að hlusta á þjóðina - þ.e. marktækt úrtak hennar.

2. Kemur eitthvað út úr fundinum?

Niðurstaðan er ekki fyrirframákveðin. Vonandi kemur út úr fundinum sameiginlegt gildismat og framtíðarsýn, auk ótal hugmynda um endurreisn Íslands. Að undanförnu hefur þjóðin verið upptekin af umræðum sem sundra henni og skipa í fylkingar. Þjóðfundinum er ætlað að skapa rými fyrir umræður sem snúast um það sem þjóðin getur sameinast um. Sterk sameiginleg heildarsýn auðveldar úrlausn erfiðra og flókinna álitamála.

3. Er ekki nóg komið af fundahöldum - hafa þau einhverju skilað?

Fundurinn er með allt öðru sniði og allt annars eðlis en hefðbundnir framsögufundir, til dæmis borgarafundir sem haldnir hafa verið undanfaríð ár. Þessi fundur byggist á samtali, þar sem öll sjónarmið fá að njóta sín og öflug bakvinnsla heldur niðurstöðunum til haga.

4. Hvernig á að koma niðurstöðunum á framfæri eftir fund?

Með því að senda þær stjórnvöldum, stofnunum og samtökum, sem hafa áhrif á gang endurreisnarstarfsins. Og með því að birta þær opinberlega, þannig að allir hafi aðgang að þeim og geti nýtt sér þær.

5. Hverju á fundurinn að breyta?

Hann á að ná athyglinni af smáatriðunum og skammtímalausnunum og yfir á framtíðarsýn þjóðarinnar. Horfa hærra og lengra og búa til raunverulega umræðu um framtíð Íslands. Þetta snýst ekki endilega um að finna eitthvað nýtt, heldur ná samstöðu um það sem við vitum og viljum innst inni. Og að við komumst að því fyrir hvað við viljum standa. Til Þjóðfundar mætir folk sem Íslendingar en ekki fyrst og fremst sem fulltrúar hagsmunasamtaka, stjórnmálaflokka eða landshluta.

6. Er hægt að finna þjóðarviljann? Eru ekki bara einstaklingar með skoðanir?

Þegar fókusinn er skýrt á framtíðinni, ætti að vera auðvelt að finna sameiginleg gildi þjóðarinnar. Þegar horft er til framtíðar er fólk líklegra til að leggja eigin þröngu hagsmuni til hliðar og horfa á heildarmyndina; hvað er mér og afkomendum mínum fyrir bestu til langs tíma litið?

7. Hvaða markmið hefur hópurinn sem undirbýr fundinn?

Engin önnur en að efna til umræðu. Hópurinn er stór, fjölbreyttur og breiður, með afar ólíkar skoðanir á þjóðfélagsmálum en brennandi áhuga á að þjóðin finni sér leið út úr þrengingunum.

8. Er ekki auðvelt að stýra niðurstöðunni?

Aðferðafræðin, sem notuð er, á að tryggja að niðurstöður fundarins endurspegli sjónarmið þeirra, sem sækja fundinn, ekki þeirra sem undirbúa hann. Borðstjórar verða á hverju borði og sjá til þess að allir við borðið fái jafnt tækifæri á að tjá skoðanir sínar og öll sjónarmið komist að.

9. Hvað kostar fundurinn?

Kostnaðurinn er á bilinu 15-20 milljónir.

10. Hver borgar?

Langmest af vinnunni er unnið í sjálfboðavinnu. Fyrirtæki og samtök gefa t.d. veitingar og mörg fyrirtæki, samtök og einstaklingar veita styrki. Enginn einn stór styrktaraðili greiðir megnið af kostnaðinum. Bókhald verkefnisins verður öllum opið að fundinum loknum.

11. Er einhver á launum við þetta verkefni?

Verkefnisstjórinn, Kristín Erna Arnardóttir, er eini launaði starfsmaðurinn. Hún er ráðin tímabundið og launin eru greidd af þeim frjálsu framlögum, sem verkefnið hefur fengið.

12. Hverjir eru í Mauraþúfunni, sem stendur á bak við fundinn?

Þorgils Völundarson, Guðjón Már Guðjónsson, Halla Tómasdóttir, María Ellingsen, Lárus Ýmir Óskarsson, Bjarni Snæbjörn Jónsson, Svandís Svavarsdóttir, Gunnar Jónatansson, Haukur Ingi Jónasson, Sigrún Þorgeirsdóttir, Ólafur Stephensen, Benjamín Axel Árnason, Guðfinna Bjarndóttir og fjölmargir aðrir sem leggja fundinum lið með ýmsum hætti.

13. Er verið að stofna nýtt stjórnmálaafl?

Alls ekki! Þjóðfundurinn er ópólitískt jafnt sem þverpólitískt verkefni og hefur hvorki framboð né fast skipulag að markmiði.

14. Er þjóðfundurinn samsæri vinstrimanna, hægrimanna, umhverfissinna, útrásarvíkinga eða einhverra annarra sem vilja ræna þjóðarviljanum í því skyni að þjóna eigin markmiðum?

Þjóðfundurinn er ekki samsæri um eitt eða neitt. Skipuleggjendurnir hafa það eitt að markmiði að þjóðin fái að tala og að sem flestir hlusti.

15. Hver verður talsmaður Þjóðfundarins?

Þeir eru margir. Að loknum fundi tala niðurstöðurnar fyrir sig sjálfar.

16. Hverjir komast á Þjóðfund?

Gert er ráð fyrir 1.200 fulltrúum sem valdir eru af handahófi úr þjóðskrá. Það fólk fær send boðsbréf, sem er fylgt eftir með símtölum. Að auki er boðið 300 fulltrúum stofnana og samtaka.

17. Kemst ég á Þjóðfund ef ég hef brennandi áhuga, þótt ég sé ekki í úrtakinu?

Nei og já. Þátttakendur við borð eru valdir úr þjóðskrá, en það verður rúmlega hundrað manna starfslið til staðar og þú getur verið í þeim hópi. Sendu okkur línu á "maurathufan@thjodfundur2009.is eða hringdu í síma 856-9331 og 856-9332.

18. Hvernig fara umræður fram á Þjóðfundinum?

Setið verður í níu manna hópum. Þar er einn borðstjóri, sem hlúir að ferli fundarins og tryggir að allir komist að. Borðstjórarnir fá allir sömu þjálfun, þannig að aðferðirnar séu samræmdar. Öflug bakvinnsla sér um að safna saman niðurstöðum af borðunum.

19. Af hverju bjóðið þið 300 viðbótaraðilum að mæta til viðbótar við slembiúrtakið?

Vegna þess að við viljum tryggja anda Þjóðfundar verði fylgt eftir að honum loknum, og sama er að segja um þær niðurstöður um gildi og framtíðarsýn, sem Þjóðfundurinn kemst að - það þarf að sjá til að þær nái út í samfélagið og stofnanir þess. Þessvegna bjóðum við stofnunum, atvinnulífi og félagasamtökum til samstarfs á fundinum og í vinnuni sem mun að fara fram eftir fundinn.