Undirsíður

Æfingar öll kvöld

11.11.2009 12:38 | MF

Æfingar borðstjóra í Hugmyndahúsi

Borðstjórarnir 162 ásamt 18 svæðisstjórum og skipuleggjendum frá Mauraþúfunni hafa nýtt síðkvöldin undanfarna daga til að æfa fyrirkomulag fundarins og skoða hvert smáatriði í framkvæmd.

Skráningu á Þjóðfund lauk á miðnætti í gærkvöldi, þriðjudag. Staðfestingar fara nú í vinnslu og má reikna með að einhver tölfræðileg mynd af fundargestum birtist okkur á fimmtudag. Viðtökur við boðsbréfinu hafa verið sérlega góðar alls staðar að af landinu.

Borðstjórar halda utan um sitt fólk og sjá til þess að allir komist að með sínar hugmyndir. Á hverju borði sitja níu Þjóðfundargestir og er borðstjórum ætlað að hafa samband við hvern og einn fyrir fundinn til að upplýsa og svara spurningum, þannig að Þjóðfundartíminn nýtist sem best í sjálfa vinnuna. Í salnum eru 162 borð og er þeim skipt upp í 18 svæði. Svæðisstjórar hafa það hlutverk að fylgjast hver og einn með 9 borðum og eru til taks ef upp koma spurningar eða vangaveltur varðandi framkvæmdina, sem fundargestir sjálfir eða borðstjórar hafa ekki svör við.

20 manna innsláttarlið, sem skipt er í nokkra hópa víðsvegar um salinn, tekur jafnóðum við gögnum frá borðunum. Innskráð gögn flytjast síðan í úrvinnsluverið, þar sem 20 manna her tekur við og vinnur úr upplýsingunum. Upplýsingarnar birtast svo jafnóðum í lifandi streymi á heimasíðu Þjóðfundar www.thjodfundur2009.is.

< Til baka í fréttalista