Undirsíður

Skráningu lýkur þriðjudagskvöld

08.11.2009 18:55 | MF

Maurarnir María, Guðjón og Halla í vinnustellingu

Gengið hefur mjög vel að staðfesta skráningar frá boðsbréfunum. Send voru út talsvert fleiri boðsbréf en ætluð tala fundargesta þar sem gert er ráð fyrir einhverjum afföllum. Nú er verið að vinna að því að ganga í endanlegar staðfestingar. Með hliðsjón af úrtakinu þarf að skoða nákvæmlega kynja, aldurs og búsetuhlutfall, þannig að fundargestir endurspegli rétt slembiúrtak.

Hér eru upplýsingar um slembiúrtak:
http://www.thjodfundur2009.is/fraedsluefni/lesa/item909/

Hér eru spurningar og svör:
http://www.thjodfundur2009.is/thjodfundur/spurningar-og-svor/

Nú hafa 1130 staðfest komu sína á Þjóðfundinn. Þegar skráningar voru síðast skoðaðar kom í ljós að yngsti fundarmaður er 17 ára og sá elsti 88 ára. Aldursdreifing staðfestra skráninga virðist vera nokkuð jöfn og einnig kynjahlutfall, nema í allra elstu aldursflokkunum. Þegar skráningu lýkur á þriðjudagskvöld verður endanlega farið yfir staðfestingar og skekkjur leiðréttar.

Í kvöld, sunnudagskvöld og næstu þrjú kvöld er fundarformið æft með borð og svæðisstjórum. Á æfingunni er farið yfir skipulagið, verklag og gallar á fyrirkomulaginu eru þannig leiðréttir jafnóðum. Auk þess sem nýjar hugmyndir um framkvæmdina eru enn að bætast við.

Á Þjóðfundi eru engir ræðumenn eða framsögumenn. Unnið er eftir ákveðnu kerfi, sem tryggir í gegnum ákveðið ferli að rödd fundarins verði samhljóma.

< Til baka í fréttalista