Undirsíður

Mauraþúfan fagnar með Guðjóni Má

05.11.2009 19:38 | MF

JCI verðlaun afhent til framúrskarandi Íslendings.

JCI samtökin hafa í dag heiðrað þrjá unga Íslendinga fyrir framúrskarandi vinnu á sínu sviði.
Guðjón Már Guðjónsson, oftast kenndur við Oz, er einn af brautryðjendum Þjóðfundarins. Viðurkenningunni er fagnað sérstaklega af Mauraþúfunni, sem er undirbúningshópur þjóðfundarins.

Í tilkynningu frá JCI segir:
„Verðlaunin „Framúrskarandi ungir Íslendingar" eru veitt árlega af JCI Íslandi og eru fyrst og fremst hvatningarverðlaun til ungs fólks á aldrinum 18 til 40 ára sem hafa fengist við krefjandi verkefni. Lögð er áhersla á að verðlauna unga einstaklinga sem hafa gefið af sér til samfélagsins og eru góðar fyrirmyndir ungs fólks."

Guðjón Már Guðjónsson er útnefndur framúrskarandi ungur Íslendingur fyrir frumkvöðlastarf á sviði viðskipta, frumkvöðla og/eða hagfræði.

Áður hefur verið tilkynnt að Guðjón Már Guðjónsson hafi verið valinn í hóp tíu merkustu ungra frumkvöðla sem staðið hafa upp úr á heimsvísu (Ten outstanding young persons)  og mun hann taka við verðlaunum á heimsþingi JCI sem fram fer í Túnis um miðjan nóvember.

Viðurkenning Guðjóns er mikil þar sem um stóran hóp var að ræða um allan heim, mörgum stórmennum hefur hlotnast þessi heiður og er þar hægt að nefna Elvis Presley, Howard Hughes og John F Kennedy.

Aðrir framúrskarandi ungir Íslendingar eru útnefndir þeir Páll Óskar Hjálmtýsson, tónlistarmaður fyrir störf/afrek á sviði menningar og Völundur Snær Völundarson, kokkur, fyrir einstaklingssigra og/eða afrek.

Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti viðurkenningar til þremenninganna á fjölmennri samkomu í Hugmyndahúsi Háskólanna síðdegis í dag.

< Til baka í fréttalista