Undirsíður

Sérlega góðar heimtur

05.11.2009 12:36 | MF

Iceland, West

Hátt í þúsund manns hafa staðfest þátttöku í þjóðfundi og vel hefur gengið að staðfesta skráningar í kjölfar útsendingar boðsbréfa.

Send voru út talsvert fleiri boðsbréf en ætluð tala fundargesta og þannig gert ráð fyrir afföllum. Hringiver Þjóðfundar, sem mannað er sjálfboðaliðum - að sjálfsögðu - nýtir helgina framundan til hins ítrasta til að ljúka staðfestingu skráninga.

Búið er að samkeyra fyrri hluta staðfestingarlista við þjóðskrá og boðsbréf. Úr þeim hópi eru 829 öruggir fundargestir. Fjölmargir eru frá landsbyggðinni og einnig fólk, sem leggur á sig ferð frá útlandinu til að taka þátt í málefnalegri og uppbyggilegri umræðu til framtíðarmótunar samfélagsins.

Yngsti fundargesturinn er enn sem komið er 17 ára og sá elsti 88 ára.

Kynjahlutföll í öllum aldurshópum, nema þeim elsta eru nokkuð jöfn. Eldri konur þyrftu að skila sér betur miðað við úrtakið.

Þeir landsmenn sem ekki fengu boðsbréf en vilja leggja Þjóðfundarhugmyndinni lið hafa til þess upplagt tækifæri um helgina þegar símaverið verður rauðglóandi í samtölum við þjóðina. Skrásetning sjálfboðaliða er í síma: 856-9333

< Til baka í fréttalista